FL Group hefur skrifað undir þriggja ára samning við Barclays Capital um allt að 400 milljóna evra fjármögnun á samningstímanum, segir í tilkynningu. Þetta samsvarar tæplega 37 milljörðum íslenskra króna miðað við gengið í dag.

Á yfirstandandi ári hefur FL Group fengið aðgang að ríflega einum milljarði evra (um 92 milljarðar íslenskra króna) fyrir tilstilli virtra alþjóðlegra bankastofnana .

Samningurinn við Barclays gerir FL Group kleift að fjármagna kaup á hlutabréfum í skráðum félögum í Evrópu og á Íslandi. Ásamt því að veita aðgang að viðbótar fjármagni, þá eykst sveigjanleiki félagsins til fjármögnunar núverandi fjárfestinga og þeirra sem ráðist verður í síðar.

Í tilkynningunni segir að undirritun samningsins sé merkur áfangi fyrir FL Group og sé félaginu mjög mikilvægur til fjármögnunar hluta þeirra verkefna sem það hyggst takast á hendur. Þetta er ótvíræður vitnisburður um stöðu FL Group á fjármálamarkaði og sýnir svo ekki verður um villst, að fjármálastofnanir hafa ekki aðeins fylgst náið með hröðum vexti og viðgangi félagsins, heldur líka að þær deila með fyrirtækinu aðferðafræði þess og framtíðarsýn.