*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 13. desember 2007 17:45

FL Group og Jötunn mega ekki fara með 39,9% hlut í Glitni

Ritstjórn

Fjármálaeftirlitið hefur hafnað sameiginlegri umsókn FL Group og Jötuns Holding, um heimild til að fara með allt að 39,9% eignarhlut í Glitni.  Ákvörðunin hefur ekki áhrif á leyfi FL Group til að eiga og fara með allt að 33% eignarhlut í Glitni. Þar með ber aðilum að selja eignarhluti sína í Glitni umfram 32,99% innan þess tíma sem Fjármálaeftirlitið ákveður að fengnum sjónarmiðum þeirra, segir í fréttatilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu.

Tvö hollensk eignarhaldsfélög í eigu FL Group eiga samtals 30,85% í Glitni, samkvæmt hluthafaskrá. Jötunn Holding á 6,85% hlut í bankanum. Jötunn Holding er í eigu Baugs Group, Fons og West Coast Capital. 1. júní 2007 sóttu félögin um heimild til að fara með allt að 39,9% eignarhlut í bankanum, sem kom í kjölfar hluthafasamkomulags þeirra og fól  í sér samstarf um kjör stjórnarmanna. Á afgreiðslutíma umsóknarinnar hefur Jötunn Holding ekki getað nýtt sér að fullu þann atkvæðisrétt sem tengdur er 6,85% eignarhlut félagsins í Glitni, segir í tilkynningu Jötuns Holding til FL Group.

"Eftir ítarlega skoðun er það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að miðað við fyrirliggjandi forsendur sé þrengra eignarhald ekki heppilegt fyrir bankann. Eftir stendur kjölfestuhlutur sem felur í sér mikla ábyrgð þeirra aðila sem með hann fara," segir Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í fréttatilkynningu.