Stjórnendur FL Group og Sterling Airlines funduðu í gær í Kaupmannahöfn vegna hugsanlegs samstarfs eða samruna félaganna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Reiknað er með að næsti fundur vegna málsins verði í næstu viku.

Hannes Smárason, starfandi stjórnarformaður FL Group, og Pálmi Haraldsson, einn af eigendum Sterling, sögðu í samtali við Viðskiptablaðið að málið væri enn á byrjunarstigi. Ef samningar nást ætti málið að ganga fljótt fyrir sig, sé FL Group búið að ganga frá fjármögnun vegna kaupanna, og þar sem bæði Sterling og Mærsk Air hafa nýlega gengið í gegnum áreiðanleikakönnun.

Mikill taprekstur hefur verið á rekstri Sterling og Mærsk Air, sem nýlega rann inn í Sterling. Taprekstur Mærsk Air á síðasta ári nam 500 milljónum danskra króna (5,14 milljarðar íslenskra króna). Einnig var taprekstur á Sterling á tímabilinu og nam tapið 120 milljónum danskra króna (1,23 milljarðar íslenskra króna). Stjórnendur Sterling-samstæðunnar áætla að viðsnúningur verði á rekstrinum á næsta ári og því verði lokað réttu megin við núllið.

Sterling hefur verið að víkka út flugleiðakerfi sitt á síðustu vikum. Félagið hefur ákveðið að hefja flug til 11 áfangastaða í Evrópu frá Finnlandi. Sterling hefur einnig áhuga hefja leiguflug frá Finnlandi.