Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að eftir kaup FL Group í gær á eignarhlutum í finnska flugfélaginu Finnair Oyj sé félagið komið í ákjósanlega stöðu ef finnska ríkið selur eignarhlut sinn.

Finnska ríkið fer með meirihluta í félaginu eða 57% en lang stærstu hluthafar félagsins þess utan eru Straumur-Burðarás með 10,74% og svo FL Group sem eykur hlut sinn núna úr 2,4% í 6,1%. "Ljóst er að FL Group kann að verða í ákjósanlegri stöðu ef finnska ríkið sleppir taki sínu af Finnair. Eins og Greining ÍSB benti á í síðustu afkomuspá frá því í október, þá myndi leiðakerfi Finnair passa vel við það leiðanet sem FL Group býr yfir og er að byggja upp. Finnair hefur lagt aukna áherslu á flug til Asíuríkja enda er mikill vöxtur á þeim markaði. Flug til Asíu er einna styst frá Helsinki og tengiflug með Sterling til Evrópuríkja myndi skapa ýmsa möguleika fyrir FL Group," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.