FL Group og Vífilfell vinna nú að kaupum á hollenska drykkjarframleiðandann Refresco, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Heimildarmenn Viðskipablaðsins segja að kaupverðið sé í kringum 500 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 44 milljörðum króna. Yfirtökuviðræðurnar eru á lokastigi.

Breski fjárfestingasjóðurinn 3i keypti Refresco fyrir um tveimur árum fyrir 312 milljónir evra og greindi félagið frá því fyrr á þessu ári að félagið væri til sölu.

Franski bankinn Societe Generale hafði umsjón með nýlegri endurfjármögnun Refresco, sem gerir eigendunum kleift að endurgreiða sér eigið fé sem greitt var við upprunalegu yfirtökuna.

Societe Generale fjármagnaði yfirtöku 3i með 228 milljón evra lánapakka, og var skuldsetningin rúmlega fjórum sinnum hagnaður Refresco fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA).

Yfirtaka FL Group og Vífilfells er skuldsett og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að Kaupþing banki muni koma að yfirtökunni og að líklega muni bankinn taka stöðu í félaginu til að styðja við kaupin, eins og algengt er á meðal fjárfestingabanka. Ekki er vitað hvort Kaupþing banki hefur sölutryggt fjármögnun fyrir kaupendurna, en kaupverðið er talið samsvara áttfaldri EBITDA.

FL Group seldi fyrr í vikunni 16,9% hlut sinn í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet fyrir 325 milljónir evra og segir félagið að gengishagnaður af sölunni nemi 140 milljónum evra, eða rúmlega tólf milljörðum. FL Group áætlar að fleyta Icelandair á hlutabréfamarkað í vor, sem er liður í stefnu félagsins að einblína á fjárfestingastarfssemi.

FL Group fjárfesti nýlega í danska raftækjaframleiðandanum Bang & Olufsen og danska bjórframleiðandanum Royal Unibrew.