FL Group hefur hafið starfsemi í London. Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að það hefur á síðustu misserum fjárfest í breskum félögum auk þess sem að í London, einni helstu fjármálamiðstöð heims, eru bankar sem komið hafa að einstökum fjárfestingaverkefnum félagsins.

Meðal nýlegra fjárfestinga má nefna kaupin á Refresco sem selt var af 3i í London sem og kaup félagsins og sölu á hlutum í easyJet.

FL Group hefur ráðið Adam Shaw sem framkvæmdastjóra starfseminnar í Bretlandi. Áður starfaði Adam hjá Kaupþingi í London þar sem hann var yfir M&A teymi bankans. Þar áður starfaði hann hjá Enskilda Securities í svipuðum verkefnum. Reynsla hans af fjárfestingarstarfsemi á Norðurlöndunum styður einnig aðra starfsemi FL Group auk þess sem þekking hans á breska markaðnum mun hjálpa FL Group að vinna frekar úr þeim verkefnum sem þar bjóðast.

Jafnframt hefur Kristín Hrönn Guðmundsdóttir verið ráðin til starfa hjá FL Group í Bretlandi. Kristín starfaði áður á fjárfestinga- og alþjóðasviði Glitnis og hefur verið með aðsetur í London um nokkurt skeið.

FL Group er fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig annars vegar áhrifafjárfestingum og umbreytingarverkefnum og hins vegar í eignastýringu, þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku á verðbréfamörkuðum. Félagið horfir einkum til Norður-Evrópu í sínum fjárfestingum en hefur þó almennt breiða sýn. Í árslok 2005 voru heildareignir félagsins 133 milljarðar og eiginfjárhlutfall 63%. FL Group er skráð í Kauphöll Íslands.

Stærstu hluthafar FL Group eru: Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. (23,6%), í eigu Hannesar Smárasonar, forstjóra; Baugur Group (18,3%); Icon (7,3%) og Materia Invest (6,6%). Í sumum tilfellum eru hlutirnir skráðir á nafn íslenskra fjármálafyrirtækja vegna framvirkra samninga.