FL Group hefur samþykkt að selja 2.338.864.240 hluti eða 22,6% heildarhlutafjár í Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf. til bankans sjálfs og viðskiptavina hans, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Kaupendur greiða 18 krónur fyrir hvern hlut og er heildarsöluverðið því um 42,1 milljarður króna. Söluverðið greiðist með um 28,3 milljörðum króna í reiðufé, um 10,2 milljörðum króna með hlutum í finnska flugfélaginu Finnair og um 3,6 milljörðum króna með hlutum í skráðum íslenskum félögum, segir í tilkynningunni.

Samningarnir eru gerðir með fyrirvara um fjármögnun kaupenda. Stefnt er að því að ljúka viðskiptunum 22. desember n.k. Eftir viðskiptin mun FL Group eiga um 400 milljón hluti í Straumi-Burðarási eða um 4% heildarhlutafjár.

FL Group eignaðist hlut sinn í Straumi-Burðarási síðla sumars 2006.

Markmið FL Group er að vera leiðandi fjárfestir og mun í kjölfar sölunnar á hlutum sínum í Straumi-Burðarási geta einbeitt sér enn frekar að núverandi fjárfestingum og tekist á við ný verkefni, segir

,,Það hefur verið ánægjulegt að vinna með forsvarsmönnum Straums-Burðaráss undanfarna mánuði og óskum við þeim velfarnaðar með félagið. Salan á hlut FL Group í Straumi-Burðarási gefur FL Group aukin byr í seglin og eykur fjárfestingagetu okkar til muna. Í kjölfarið á kaupum okkar í Straumi-Burðarási í sumar jók FL Group eigið fé um ríflega 35 miljarða króna sem skipti sköpum fyrir fjárhagslegan styrk félagsins. Við horfum björtum augum til framtíðar,? segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group.

FL Group er fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig annars vegar í áhrifafjárfestingum og umbreytingar­verkefnum og hins vegar í eignastýringu þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku á verðbréfamörkuðum. Félagið horfir einkum til Norður-Evrópu í sínum fjárfestingum en hefur þó almennt breiða sýn. FL Group er skráð í Kauphöll Íslands (ICEX: FL). Stærstu hluthafar FL Group eru: Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. (19,8%), í eigu Hannesar Smárasonar, forstjóra; Baugur Group (18,2%); Gnúpur fjárfestingafélag (17,2%), FL Group (7,0%) Icon (5,6%) og Materia Invest (5,1%). Í sumum tilfellum eru hlutirnir skráðir á nafn íslenskra fjármálafyrirtækja vegna framvirkra samninga.