FL Group hefur selt 16,9% eignarhlut sinn í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Orðrómur fór af stað London þegar fjárfestingabankinn JP Morgan tók að selja bréf í easyJet á genginu 340-343 pens á hlut.

Eftir að Viðskiptablaðið fór í prentun sendi FL Group frá sér tilkynningu til fjölmiðla og þar greindi Hannes Smárason forstjóri frá sölunni. Þar kom fram að gengishagnaður hafi verið um 140 milljónir evra, eða rúmlega tólf milljarðar króna. Hannes segir í tilkynningu til fjölmiðla að ástæðan fyrir sölunni hafi verið önnur fjárfestingatækifæri.

Gengi bréfa FL Group hríðféll í gær um 5,4% og gekk hækkun ársins að mestu leyti til baka. Félagið hafði í gær, eftir lækkanir síðustu vikna, hækkað um 0,5% frá áramótum.

Orðrómur er á kreiki að FL Group hafi þurft að selja hlutinn í easyJet þar sem hlutabréfastöður félagins erlendis eru töluvert skuldsettar og einnig segja sumir sérfræðingar að líklega hafi lækkanir á gengi bréfa félagsins ?hjálpað" FL Group að taka ákvörðun um að selja hlutinn.

Hannes Smárason sagði í viðtali við Dow Jones fréttastofuna þann 31. mars að félagið hefið áhuga á að auka hlutinn í easyJet.