FL Group hefur minnkað hlut sinn í þýska bankanum Commerzbank. Í ljósi lækkunar hlutabréfa í Commerzbank undanfarna daga hefur FL Group ákveðið að upplýsa um eignarhlut sinn í bankanum sem er um 2,1% (15. janúar 2008) að því er kemur fram í tilkynningu félagsins. Um áramót var eignarhluturinn um 2,9% og hafði þá minnkað úr 4,3% í lok þriðja ársfjórðungs. Bréf Commerzbank hafa lækkað um 8,1% og eru nú að seljast á 22 evrum hluturinn.

Sala hlutar FL Group í bankanum er hluti af reglulegu mati félagsins á eignum sem ekki falla undir kjarnafjárfestingar. Heildargengistap vegna lækkunar bréfa Commerzbank á árinu 2008 nemur um 2,6 milljörðum króna (m.v. lok dags 15. janúar), að teknu tilliti til markaðsvarna félagsins.

Um FL Group

FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafélag með áherslu á þrjú fjárfestingasvið, FIG, Private Equity og Capital Markets.  FIG hefur umsjón með fjárfestingum félagsins í fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum.  Private Equity heldur utan um óskráðar eignir ásamt skráðum eignum sem falla að fjárfestingarstefnu félagsins.  Capital Markets svið félagsins hefur umsjón með markaðsviðskiptum sem lúta að skammtíma fjárfestingum sem og framkvæmd afleiðu- og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins. Kjarnafjárfestingar FL Group eru m.a. í Glitni banka, Tryggingamiðstöðinni og Landic property.

Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í Lundúnum. FL Group fjárfestir í félögum um allan heim en leggur sérstaka áherslu á fjárfestingar í Evrópu. FL Group er skráð á OMX Nordic Exchange í Reykjavík (OMX: FL) og hluthafar félagsins eru rúmlega 4.000 talsins.