*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 19. desember 2007 09:28

FL Group selur í Finnair

Ritstjórn

FL Group [FL] hefur selt 11,7% eignarhlut í finnska flugfélaginu Finnair og er sala bréfanna í samræmi við stefnu félagsins um að minnka fjárfestingar tengdar flugrekstri.

Í tilkynningu vegna sölunnar segir að áhersla verði áfram lögð á að styðja vel við núverandi fjárfestingar í fjármála- og fasteignafélögum, auk þess sem félagið mun leita áhugaverðra tækifæra í einkafjárfestingum (private equity). Sala bréfanna fellur einnig vel að þeirri yfirlýstu stefnu stjórnenda Finnair, að auka dreifingu eignarhalds, en fyrir söluna áttu FL Group og finnska ríkið um 80% af útistandandi hlutafé félagsins. 

Rekstur Finnair hefur gengið vel á árinu og gaf félagið nýlega út jákvæða afkomuviðvörun, þar sem búist er við að hagnaður félagsins aukist úr 70 milljónum evra, sem áður var spáð, í 90 milljónir evra á árinu 2007. FL Group er áfram annar stærsti hluthafinn í Finnair, með 12,7% eignarhlut í félaginu.

 

Fjárhagsleg áhrif

Í lok þriðja ársfjórðungs var heildarvirði hlutar félagsins í Finnair um 22,1 milljarður króna og samsvarar raunverulegu markaðsvirði hlutarins, þar sem FL Group færir allar sínar eignir á markaðsvirði í árshlutauppgjörum. Samhliða óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og almenna lækkun hlutabréfa í flugfélögum undanfarna mánuði, hefur markaðsvirði þess hlutar sem nú er seldur lækkað um 2,8 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi, segir í tilkynningunni.