FL Group hefur samþykkt tilboð í allan hlut sinn í Kynnisferðum ehf, segir í fréttatilkynningu frá félaginu, og nemur áætlaður söluhagnaður 450 milljónum króna. Glitnir hefur hefur haft félagið í sölumeðferð frá því í febrúar á síðasta ári.

Í tilkynningu FL Group segir að kaupandi sé hópur fjárfesta undir forystu SBA-Norðurleiðar hf. og Hópbíla/Hagavagna hf. .

Kynnisferðir voru stofnaðar árið 1968. Félagið heldur uppi ferðum milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og býður upp á dagsferðir frá Reykjavík til allra helstu ferðamannastaða í nágrenni borgarinnar, auk þess að sinna margháttaðri annarri þjónustu.

Í tilkynningunni segir að rekstur Kynnisferða hefur verið með ágætum undanfarin ár, markaðsstaða fyrirtækisins er sterk og velta þess nam á síðasta ári um 1,5 milljörðum króna.

Með þessu hefur FL Group lokið sölu á öllum dótturfyrirtækjum sínum sem tengdust gamla ferðaþjónustuhluta Flugleiða eins og hann var, áður en fyrirtækið fékk nafnið FL Group.