FL Group hefur selt allan hlut sinn í danska fyrirtækinu Bang & Olufsen A/S (B&O), eða sem svarar 10,76% af hlutafé fyrirtækisins. Kaupendur eru hópur danskra og alþjóðlegra stofnanafjárfesta. Söluandvirðið nemur um 10,2 milljörðum króna. FL Group hefur verið hluthafi í B&O frá því í ársbyrjun 2006 segir í tilkynningu félagsins. Ekki kemur fram hvort söluhagnaður er af eigninni.

Salan á hlut FL Group í B&O er í fullu samræmi við stefnu FL Group og með henni aukast möguleikar félagsins til að takast á við ný verkefni. Að undanförnu hefur FL Group meðal annars fjárfest í evrópska fjármálageiranum, t.a.m. með kaupum á 2,99% hlut í Commerzbank í Þýskalandi og í afþreyingariðnaði í Bretlandi auk þess að styðja við uppbyggingu Refresco sem keypt hefur fjögur fyrirtæki á undanförnum vikum. Ennfremur hefur FL Group nýverið greint frá umtalsverðri fjárfestingu á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum í samstarfi við Bayrock Group LLC, þarlent fasteignafélag. Félögin hafa þegar hafið undirbúning nokkurra stórra þróunarverkefna austan hafs og vestan.

Hannes Smárason forstjóri FL Group segir: ,,Fjárfestingastefna FL Group einkennist af miklum sveigjanleika og stöðugri leit að fjárfestingakostum sem bæta eiga hag fyrirtækisins. Sem hluthafi í B&O, leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í heiminum, hefur FL Group öðlast mikilsverða reynslu og við óskum B&O velfarnaðar í framtíðinni. Við teljum hinsvegar rétt nú, í þágu okkar hluthafa að kanna nýjar slóðir.?


Um FL Group

FL Group er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig annars vegar í áhrifafjárfestingum og umbreytingar¬verkefnum þar sem áhersla er lögð á langtíma fjárfestingar í skráðum og óskráðum félögum og hins vegar í markaðsviðskiptum sem lúta að skammtíma fjárfestingum sem og framkvæmd afleiðu- og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins.

Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í Kaupmannahöfn og London. Það fjárfestir einkum í Norður-Evrópu, aðallega á Norðurlöndum og Bretlandi, en vinnur þó einnig á öðrum mörkuðum. FL Group er skráð á OMX Nordic Exchange í Reykjavík (OMX: FL). Í lok mars 2007 námu heildareignir félagsins 303 milljörðum króna og markaðsvirði þess var 236 milljarðar.

Stærstu hluthafar FL Group eru: Oddaflug B.V (19,8%), í eigu Hannesar Smárasonar, forstjóra félagsins; Gnúpur fjárfestingafélag (19,1%); Baugur Group (18,2%) og Icon og Materia Invest (10,7%). Í sumum tilvikum eru hlutir skráðir á nafn íslenskra fjármálafyrirtækja vegna framvirkra samninga. Frekari upplýsingar má finna á www.flgroup.is