FL Group, fyrir hönd Icelandair Group, hefur samið um kaup á tveimur Boeing 787-8 Dreamliner farþegaþotum fyrir Icelandair, segir í fréttatilkynningu. Heildarverðmæti flugvélanna tveggja samkvæmt verðskrá er um 290 milljónir bandaríkjadala, eða um 21 milljarður íslenskra króna.

Flugvélarnar verða afhentar vorið 2012, en tveimur árum fyrr, eða á árinu 2010 fær Icelandair afhentar tvær fyrstu Boeing 787 breiðþoturnar sem pantaðar voru fyrir rúmu ári síðan.

Icelandair, dótturfélag Icelandair Group, mun nýta vélarnar til að þróa áfram leiðakerfi sitt og endurnýja flugflota. Félagið á möguleika á að nýta sér kauprétt á þremur Boeing 787 flugvélum til viðbótar.

"Við skynjum vel það mikla aðdráttarafl sem þessi byltingarkennda flugvél hefur fyrir farþega og með því að taka Boeing 787 inn í flugflota okkar sjáum við mikil sóknarfæri í flug- og ferðaþjónustunni á Íslandi. Boeing 787 flugvélin getur flogið beint til Íslands frá nánast allri heimsbyggðinni, 6 milljarða manna markaði. Með því að tryggja okkur vélar af þessari gerð erum við því að opna ótal möguleika í framtíðarþróun félagsins.", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group.

Samið hefur verið við Rolls Royce um Trents 1000 hreyfla fyrir Boeing 787 flota félagsins.. Alls hafa 28 flugfélög pantað 345 flugvélar af þessari tegund og er hún vinsælasta nýsmíði í sögu Boeing.

"Við erum staðráðin í því veita Icelandair Group allan okkar stuðning í metnaðarfullri vaxtarstefnu félagisins. Boeing 787 hefur alla réttu kostina fyrir Icelandair og gefur félaginu tækifæri til að bjóða farþegum á arðbæran hátt alveg nýja flugupplifun, segir Marlin Dailey, yfirmaður sölumála Boeing Commercial Airplanes í Evrópu.

Boeing 787 er tegund flugvéla sem taka 200-300 farþega og henta einkum á vegalengdum allt að 16.000 kílómetrum. Hún mun nota 20% minna eldsneyti en farþegaþotur gera núna og mun geta boðið 45% meira vörurými, en flugvélar af sambærilegri stærð gera í dag. Farþegarýmið verður gjörólíkt því sem nú tíðkast, gluggar verða mun stærri, sæti og gangar verða breiðari, rakastig verður hærra og margt fleira gerir það að verkum að upplifun farþegans af fluginu verður mun ánægjulegri.