Hagnaður FL Group samstæðunnar fyrir skatta árið 2005 var rúmir 20,5 milljarðar króna samanborið við rúma 4,3 milljarða króna hagnað árið áður, segir í tilkynningu.

Að teknu tilliti til skatta var hagnaður tímabilsins tæpir 17,3 milljarðar króna, samanborið við tæpa 3,6 milljarða króna árið áður.

Arðsemi eiginfjár nam 55,2% á tímabilinu. Afkoma af fjárfestingastarfsemi nam tæpum 18,4 milljörðum króna fyrir skatta, og þar af var hagnaður á fjórða ársfjórðungi 13,3 milljarðar króna.

?Þetta er langbesta afkoma í sögu félagsins og endurspeglar árangurinn af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á starfseminni. Með hlutafjárútboðinu í nóvember síðastliðnum var stigið mikilvægt skref í að gera FL Group að öflugu fjárfestingafélagi og er stærsti hluti afkomunnar nú af fjárfestingastarfsemi félagsins," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group.

Heildareignir í árslok voru 132,6 milljarðar króna og hafa aukist um 89,1 milljarða króna á árinu.

Eigið fé í árslok var 74,4 milljarðar króna í árslok og eiginfjárhlutfall 62,9%

Afkoma af fjárfestingastarfseminni frá síðustu áramótum til 9. mars er jákvæð um 17,6 milljarðar króna fyrir skatta, segir í tilkynningunni.

Eign FL Group í markaðsverðbréfum 9. mars var 150,4 milljarðar króna, þar af voru 67,7 milljarðar króna í erlendum verðbréfum, segir í tilkynningu.

EBITDA rekstrarfélaga var 4,8 milljarðar króna á árinu 2005 og batnar lítillega milli ára.

Hagnaður rekstrarfélaga fyrir skatta nam 2,2 milljörðum króna og batnar lítillega milli ára. Handbært fé frá rekstri hjá rekstrarfélögunum var 5,7 milljarðar króna og batnar um 1,4 milljarða milli ára.