Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að félagið hafi áhuga á því að fjárfesta í nýju fyrirtæki sem geti staðið undir öflugu fjárflæði til félagsins eftir söluna á Icelandair.

"Við höfum verið að horfa á ný svið, svo sem afþreyingariðnaðinn í Bretlandi (e. leisure) -- veitingahús, pöbba, fjárhættufyrirtæki en löggjöfinni hefur nýverið verið breytt á því sviði og opnað fyrir nýja möguleika. Þetta er iðnaður sem hefur sterkt fjárstreymi og hefur fengið sinn skerf að einkafjárfestingaverkefnum. Því höfum við verið að skoða þetta. Einnig höfum við horft til fasteignareksturs. Sömuleiðis höfum við skoðað meira á iðnaðarsviðinu þannig að við komum víða við."

Hannes bendir ennfremur á að félagið sé nú að vinna að nýjum fjármögnunarleiðum í gegnum þýskan fjárfestingabanka sem verða kynntar innan skamms en þær verða mjög afgerandi fyrir FL Group að því er Hannes telur.

Eftir söluna á Icelandair verður eigið fé félagsins nálægt 150 milljörðum króna. Í viðtalinu við Hannes kemur fram að félagið hyggst helst ekki ráðast í verkefni sem eru að heildarvirði (e. enterprise value) undir 200 milljónum evra, eða í kringum 16 til 20 milljarðar króna. "Það er lágmarksstærð á verkefni sem við höfum áhuga á vegna þess að um leið og við byrjum að vinna í mjög mörgum smáum verkefnum víkur einbeitingin. Það er ljóst að við munum horfa til þess að stækka þessar alþjóðlegu skrifstofur meira en hér á Íslandi. Það má segja að það séu ekki svo mörg tækifæri eftir á Íslandi fyrir utan fjárfestingar okkar í bankageiranum sem eru kjölfestufjárfestingar sem við munum ekki snerta. Við munum horfa fyrst og fremst út fyrir landsteinanna," segir Hannes.

Það kom fram hjá Hannesi að eitthvað mun gerast í kringum Sterling innan skamms. Einnig segir hann ljóst að það munu verða kynnt uppkaup í kringum Refresco fljótlega. Einnig nefnir hann til sögunnar Royal Unibrew þar sem FL Group er stór hluthafi með 22% hlut. Það er félag sem stjórnendur FL Group skoða mjög nákvæmlega þessa dagana.