FL Group staðfesti í morgun að félagið hefur átt í viðræðum við fjárfestingafélagið 3i um kaup á hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco.

Viðskiptablaðið sagði frá viðræðunum í dag. Heimildarmenn Viðskipablaðsins segja að kaupverðið sé í kringum 500 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 44 milljörðum króna. Yfirtökuviðræðurnar eru á lokastigi.

Samkvæmt heimildum blaðsins mun Vífilfell einnig taka þátt í kaupunum, ásamt Kaupþingi banka. Kaupþing banki mun llíklega koma að fjármögnun yfirtökunnar, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins.

Breski fjárfestingasjóðurinn 3i keypti Refresco fyrir um tveimur árum fyrir 312 milljónir evra og greindi félagið frá því fyrr á þessu ári að félagið væri til sölu.

Í tilkynningu FL Group til Kauphallar Íslands segir: ?FL Group hefur átt í viðræðum við fjárfestingafélagið 3i Plc. um kaup á hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Viðræður eru á lokastigi og munu niðurstöður þeirra liggja fyrir á næstu dögum. FL Group mun ekki tjá sig frekar um málið á þessum tímapunkti."