Tap FL Group [ FL ] á fyrsta fjórðungi þessa árs nam 47,8 milljörðum króna. Afkoman er vel undir meðalspá greiningardeilda, sem hljóðaði upp á 37 milljarða tap.

Stærstan hluta tapsins má rekja til 21,4% lækkunar á gengi hlutabréfa í Glitni (20,6 milljarða króna tap), lækkunar gengis í öðrum skráðum félögum (13,8 milljarða króna tap) og sölu á eftirstandandi hlutum í Commerzbank, Finnair og Aktiv Kapital (11,3 milljarða króna tap), segir í fréttatilkynningu.

Heildareignir í lok fyrsta ársfjórðungs námu 401 milljarði króna.

Eigið fé nam 115.2 milljörðum að meðtöldum 7 milljarða þýðingarmun.

Eiginfjárhlutfall á fyrsta ársfjórðungi var 29% og eiginfjárhlutfall fjárfestingastarfsemi var 33%.

Handbært fé nam 18,9 milljörðum króna. Eftirstandandi skuldir sem koma til gjalddaga á árinu 2008 nema um 7,0 milljörðum króna.

Rekstrarkostnaður á fyrsta ársfjórðungi 2008 vegna fjárfestingastarfsemi nam 588 milljónum króna sem er 33,5% lækkun á milli ára og 73,1% lækkun frá fjórða ársfjórðungi 2007.

Tap Tryggingamiðstöðvarinnar, sem tilheyrir samstæðureikningi FL Group, nam 3,3 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2008 sem skýrist að mestu af tapi á fjárfestingastarfsemi félagsins.