Eins og fram kom í tilkynningu í morgun verður fjárfestingafélagið FL Group nú eignarhaldsfélagið Stoðir en FL Group var upphaflega móðurfélag rekstrarfélaga í flugrekstri og ferðaiðnaði.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þegar FL Group skiltið var tekið niður af skrifstofubyggingu félagsins í morgun.

Stærsta eign FL Group var Icelandair sem selt var í desember 2006 og nafnið FL Group var skírskotun til fyrra nafns Icelandair, Flugleiða.

Í tilkynningu frá félaginu, sem nú mun heita Stoðir, kemur fram að FL Group hefur tekið miklum stakkaskiptum síðustu misserin. Starfsemi félagsins hefur verið endurskipulögð og fjárfestingastefnunni breytt.

„Nafnið FL Group endurspeglar því ekki núverandi starfsemi félagsins. Nafnið Stoðir lýsir vel meginviðfangsefnum félagsins sem kjölfestufjárfestis sem styður og eflir kjarnafjárfestingar sínar til lengri tíma litið. Nafnabreytingin er gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar sem auglýstur verður síðar,“ segir í tilkynningunni.