FL Group hyggst láta reyna á það á hluthafafundi finnska flugfélagsins Finnair, þann 22. mars næstkomandi, hvort þeim verði haldið fyrir utan stjórn félagsins. "Við ætlum að láta á það reyna hvort þeir kjósa okkur út," sagði Hannes Smárason, forstjóri félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið í gær, en hann verður í framboði til stjórnar á fundinum.

Fulltrúar finnska ríkisins í stjórn félagsins hafa hafnað því að FL Group komi inn stjórnarmanni, en finnska ríkið ræður 56% hlutafjár. FL Group er næststærsti hluthafi félagsins með 22,5% hlut.

"Við ætlum að mæta á fundinn með okkar tillögu og ég vill bara sjá þá kjósa okkur burtu, en ég held að það sé mjög slæmt fyrir þá að það sjáist að þeir taki ekkert tillit til næststærsta hluthafans. Það getur ekki verið gott fyrir aðkomu finnska ríkisins að þessu félagi. Annað hvort ertu með félag sem er skráð á markað eða ekki. Menn verða að ákveða hvað þeir vilja," sagði Hannes.

Hannes sagði að hluturinn í Finnair væri eins og hver önnur fjárfesting í þeirra huga, og þegar þeir mætu það svo að þeirra hlutverki væri lokið þá yrði selt. "Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um það hvort við seljum eða ekki. Við getum allt eins keypt meira eða haldið núverandi stöðu. Við höldum öllum möguleikum opnum," sagði Hannes og fullyrti að það yrði ekkert vandamál að selja hlutinn ef svo bæri undir.

- En þegar þið fóruð inn vissuð þið af þessari tregðu við að hleypa inn utanaðkomandi stjórnarmönnum. Hver var ykkar áætlun?

"Við höfuðum fyrst og fremst áhuga á þessu fyrirtæki sem fjárfestingu, enda teljum við það mjög spennandi. Það var upphafið. Þrátt fyrir að menn heyri hluti þá veit maður aldrei hver afstaðan er fyrr en á reynir. Og við vildum láta á það reyna hvað menn væru staðfastir í þessu. Svo vissum við ekki um vilja finnska ríkisins, hvort þeir vildu eiga þetta áfram eða vildu minnka við sig. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Svo er líka möguleiki að setja þessi bréf í hendurnar á öðrum félögum sem hafa hugsanlega áhuga á flugleiðum í Finnlandi eða félaginu öllu. Það er ekkert launungarmál að bæði SAS og Aeroflot hafa sýnt áhuga á að fjárfesta í þessu fyrirtæki. Það verður ekki vandamál að finna pláss fyrir þessi bréf."