Markaðsverðmæti Inspired Gaming Group (IGG) var um 22 milljarðar þegar FL Group hætti við yfirtöku á félaginu hinn 19. desember 2007, að því er fram kemur í athugasemd FL Group vegna f réttar um markaðsvirði félagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá FL Group lækkaði gengi IGG úr 370 í 240 pens á þeim fjórum mánuðum sem yfirtakan var til skoðunar. Það hafi orðið til þess að hætt var við hana.

Fram kom í svari Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns FL Group, í mars síðastliðnum við fyrirspurn Vilhjálms Bjarnasonar, hluthafa í FL Group, að beinn útlagður kostnaður FL Group vegna athugunar á kaupum á Inspired Gaming Group hafi numið tæpum 800 milljónum íslenskra króna. Sjá frétt Viðskiptablaðsins hér .

Vb.is greindi í gær frá frétt Ríkisútvarpsins um málið og sendi FL Group í kjölfarið frá sér eftirfarandi athugasemd.

Athugasemdin er svohljóðandi: „Vegna fréttar RÚV um fyrirhugaða yfirtöku FL Group á breska fyrirtækinu Inspired Gaming Group síðastliðið haust, þar sem því er haldið fram að FL Group hafi talið Inspired 62 milljarða króna virði í desember síðastliðnum, vill FL Group taka fram að þegar FL Group hætti við yfirtöku á Inspired þann 19. desember 2007 var markaðsverðmæti Inspired um 22 milljarðar króna, miðað við skráð gengi félagsins í kauphöllinni í London."