FL Group hefur hagnast um samtals 16 milljarða króna af stöðum sínum í bandarísku flugsamsteypunni AMR Corporation og Glitni, samkvæmt útreikningum greiningardeildar Glitnis.

Gengi hlutabréfa AMR hækkaði um 7,11% í viðskiptum gærdagsins og endaði verð hlutabréfa félagins í 40,23 Bandaríkjadalir á hlut. FL Group eignaðist 5,98% hlut í AMR í desember síðastliðnum.

Glitnir segir að verðmæti eignar FL Group hafi numið 28 milljörðum þann 27. desember, samkvæmt tilkynningu félagsins. Verð hlutabréfa AMR hefur hækkað um 33% það sem af er ári og má því áætla að hagnaður FL Group af eigninni nemi um 8,9 milljörðum Þá er miðað við fast gengi krónu og dals og ekki tekið tillit til kostnaðar við fjármögnun.

"Verðmæti Glitnis banka hefur hækkað um 6,9% það sem af er ári og má því áætla að hagnaður FL Group af eign sinni í bankanum nemi um sjö milljörðum frá áramótum. Hagnaður FL Group af þessum tveimur stærstu eignarhlutum sínum nemur því samtals um 16 milljörðum á árinu," segir greiningardeildin.