FL Group[ FL ] hefur minnkað hlut sinn í yfirtökutilboði í breska félagið Inspired Gaming Group í 45%, að því er fram kom í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns FL Group, á hluthafafundi í morgun. Félagið tók þessa skuldbindingu á sig í ágúst, að sögn Jóns Ásgeirs.

Þegar FL Group staðfesti að það ætti í yfirtökuviðræðum við breska félagið kom ekki fram að það yrði tekið yfir í samstarfi við aðra fjárfesta. Yfirtökutilboðið hljóðar upp á um 35,5 milljarða króna.

Þessi fjárfesting fellur undir einkafjárfestingaarm FL Group (e. Private equity). Jón Ásgeir sagði á hluthafafundinum að áfram verði lögð áhersla á þennan arm og að þar hefði verið ötullega fjárfest að undanförnu. “Við sjáum kannski ekki mikla fjárfestinga á næstu mánuðum,” sagði hann.

Starfssemi FL Group er skipt í þrjú svið: Einkafjárfestingar, fjármála- og tryggingasvið (Financial Institution Group) og markaðsviðskipti (Capital Markets).