*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 23. febrúar 2017 13:55

„Flækjustig laganna hátt“

Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að endurskoða lagaákvæðið um nýsköpunarfyrirtæki til einföldunar til að þau nái markmiði sínu.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Samtök atvinnulífsins (SA) benda á að flækjustig nýrra laga til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja sem að mikill meirihluti þingmanna samþykkti á síðasta ári sé of hátt. Þetta kemur fram í grein Samtaka atvinnulífsins á vefsíðu samtakanna.

„18 tölusettir liðir sem innihalda margþættar kröfur. Það er ekki óeðlilegt að ívilnunum sem þessum séu sett takmörk, þó öllu megi ofgera,“ segir á nýrri frétt á síðu samtakanna.

Að mati SA er tilgangur laganna göfugur, þ.e. að bæta samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja, styðja við nýsköpun og þróun og stuðla að gegnsæi og aukinni skilvirkni skattkerfisins. „Samtökin atvinnulífsins hvöttu til lagasetningarinnar og vonast til að breytingarnar muni leiða til betra rekstrarumhverfis nýsköpunarfyrirtækja. Samtökin telja þó skilyrði fyrir ívilnun vera of þröng og aðra annmarka vera á löggjöfinni sem þarft sé að lagfæra.

Meðal þeirra eru lágmarksfjárhæð hverrar fjárfestingar, að félagið eigi ekki í fjárhagsvanda að stríða, að hjá félaginu starfi ekki fleiri en 25 starfsmenn og ákveðnar efnahagsstærðir félagsins fari ekki yfir tiltekið hámark eða að félagið lendi í greiðsluerfiðleikum. Einnig má einstaklingur sem nýtur frádráttar ekki hafa verið tengdur félaginu, tveimur árum fyrir og þremur árum eftir skráða hlutafjáraukningu. Þar fyrir utan er í 11 töluliðum talin upp starfsemi félaga sem falla ekki undir ákvæðið og veita því ekki rétt til skattafrádráttar.

Einstök skilyrði ákvæðisins eru beinlínis mótsagnakennd innbyrðis. Til dæmis getur hlutafjáraukning í félagi að hámarki numið tveimur milljörðum króna en annað skilyrði er að árleg velta og/eða efnahagsreikningur félagsins þurfi að vera undir 650 milljónum króna. Innborgað hlutafé verður hluti af efnahagsreikning félagsins og því ómögulegt að framkvæma hlutafjáraukningu upp á meira en 650 milljónir án þess efnahagsreikningur félagsins fari yfir þá fjárhæð,“ segir í frétt SA.

Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að endurskoða lagaákvæðið til einföldunar til að þá nái markmiði sínu. „Sé ekkert að gert er hættan sú að fjárfestar fælist frá því að nýta sér heimildina vegna þeirrar áhættu sem í henni felst. Afleiðingin verður sú að nýsköpunarfyrirtæki muni halda áfram að leita út fyrir landsteinana eftir fjármögnun í staðinn fyrir að byggja upp starfsemi sína hér á landi,“ er að lokum tekið fram í grein samtakanna.