Tilkynnt var fyrir rúmri viku með nýju fjárlagafrumvarpi að tekjuskattur einstaklinga verði lækkaður í tveimur áföngum í stað þriggja, og nýtt lægsta skattþrep verði lægra en áður hafði til staðið. Á móti verður miðþrepið hærra og persónuafsláttur lækkaður. Breytingarnar eru sagðar munu kosta ríkissjóð um 21 milljarð króna.

Vísitölutenging bæði persónuafsláttar og markanna milli þrepanna gerir samanburð á nýja kerfinu og því gamla nokkuð snúinn.  Á laugardag gagnrýndi Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, það að fólk á lægstu launum væri skilið eftir, og að sumir í hlutastörfum greiddu jafnvel hærri skatt en áður. Á mánudag birtist svo aðsend grein í Morgunblaðinu þar sem því var haldið fram að tekjuskattur eldri borgara myndi hækka við breytinguna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra brást við báðum yfirlýsingum á Facebook, þar sem hann sagði þær rangar.

Sé kerfið eins og það er sett fram árið 2021 borið saman við tekjuskattskerfi dagsins í dag lækkar skattbyrði allra tekjuhópa, en krónutölulækkunin er nokkuð jöfn upp tekjustigann, og þeir tekjuhæstu fá einna mestu lækkunina.

Sú mynd er hins vegar skökk vegna ofangreindrar tekjutengingar. Samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarpsins sem byggja á þjóðhagsspá fara lækkunaráhrif breytinganna lækkandi eftir því sem tekjustiginn er klifinn, og enda í -8 krónum fyrir laun umfram tæpar 1.076 þúsund krónur. Misræmið stafar af því að eftir því sem þrepamörkin hækka með verðlagi lækkar skattbyrði hátekjufólks að nafnvirði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .