Magnús Ásgeirsson tók við starfi framkvæmdastjóra Nasdaq verðbréfamiðstöðvar í febrúar. Þrátt fyrir reynslu sína af störfum fyrir Kauphöllina segir hann að flækjurnar sem fylgja uppgjöri verðbréfaviðskipta hafi komið honum nokkuð á óvart. Magnús var viðmælandi í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

„Þegar maður kafar dýpra í framkvæmd verðbréfauppgjörs og reksturs verðbréfamiðstöðva sér maður hvað þetta er flókið. Uppgjörsþátturinn einn og sér er gríðarlega flókinn og mjög erfitt að átta sig á heildarsamhenginu ef þú ert ekki að vinna inni í kerfunum og að framkvæma hlutina dagsdaglega. Ég hef verið hjá Kauphöllinni síðan 2007 og verðbréfamiðstöðinni frá 2014. Ég hef alla tíð sett mig inn í hlutina en þetta er mjög flókið og tæknilegt umhverfi. Fyrst og fremst erum við að reka flókið tölvukerfi sem gerir manni erfitt um vik að sjá alla myndina, hvernig allt tengist saman og hvernig verðbréf og peningar skipta um hendur. Svo eru mýmargir milliliðir í mörgum tilvikum sem gerir þetta enn flóknara. Eftir því sem maður kafar dýpra í hlutina koma alltaf áhugaverðir hlutir í ljós. Það er samt alltaf gaman að takast á við nýja hluti og nýjar áskoranir. Það er áskorun að fara með þennan rekstur inn á ný mið og nýtt umhverfi og er mikið tilhlökkunarefni. Þá getum við loks boðið íslenskum fjárfestum þessi nýju tækifæri. Þetta mun auðvelda öll viðskipti og framkvæmd í framtíðinni.“

Vöxtur efnahagslífsins háður vexti fyrirtækja

Áhrif þess að erlendir fjárfestar sjái hag sinn í að fjárfesta eru meðal annars þau að stærri fyrirtæki gætu átt auðveldara með að fjármagna sig á innlendum verðbréfamarkaði.

„Við vitum að stærri íslensk fyrirtæki telja íslenska markaðinn of lítinn og vilja sækja á erlend mið. Við viljum auðvelda íslenskum stórfyrirtækjum að þrífast á markaði hér. Vöxtur efnahagslífsins er háður því að fyrirtæki geti vaxið og dafnað hér á landi og við viljum skapa forsendur til þess hérna. Eitt af því sem við erum að gera með því að ryðja þessum hindrunum sem ég nefndi úr vegi er að gera íslenskum stórfyrirtækjum kleift að sækja í erlenda fjárfesta á Íslandi. Við vonumst til að með þessum breytingum komi erlendir fjárfestar í auknum mæli. Á Norðurlöndunum eiga fjárfestar viðskipti yfir landamæri í kauphöllunum og inn í Evrópu en ekki til Íslands þrátt fyrir að vilja koma hingað. Við þurfum að vinna að því að stuðla að aukinni virkni á íslenskum verðbréfamarkaði. Til að það verði þarftu að dreifa eigninni með einhverjum hætti og fá inn fleiri og fjölbreyttari flóru fjárfesta. Í dag erum við eiginlega bara með stóra íslenska fjárfesta inni í fyrirtækjum. Við viljum fá fleiri einstaklingsfjárfesta og þar að auki erlenda fjárfesta – hvort tveggja sem eigendur og lánveitendur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .