Sjóðir á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, dótturfélags Arion banka, keyptu í dag 16 milljón hluti í Icelandair Group fyrir tæpar 118 milljónir króna. Fram kemur í flöggun frá sjóðnum að hann eigi nú 10,31% hlut í flugrekstrarfélaginu. Fyrir áttu sjóðir Stefnis 9,55% hlut í Icelandair Group.

Undir Stefni eru m.a. fjárfestingarsjóðirnir Stefnir-ÍS 15 og Samval og fagfjárfestasjóðurinn Stefnir-ÍS 5 ásamt fleiri sjóðum.

Þá segir í flöggun til Kauphallarinnar, að Stefnir eigi ekki eignarhluti í Icelandair Group með beinum hætti.

Viðskiptablaðið vakti athygli á því fyrr í dag að á sama tíma og tilkynnt var um yfirtöku Wow air á Iceland Express hafi verið um tífalt meiri velta með hlutabréf Icelandair Group. Meðalvelta með hlutabréf Icelandair Group á dag frá í byrjun september nam 58,4 milljónum króna. Hún nam hins vegar rétt tæpum 542 milljónum króna í Kauphöllinni í dag.