*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Fólk 7. mars 2021 16:01

Flakkað heimshorna á milli

Guðrún Aðalsteinsdóttir, nýr forstöðumaður innkaupa og vörustýringarsviðs hjá Krónunni, hefur búið og starfað víða um heim.

Sveinn Ólafur Melsted
Guðrún lýsir sjálfri sér og unnusta sínum, Leifi Sigurðarsyni, sem miklum flökkukindum, en þau hafa búið saman í Danmörku, á Englandi og Nýja-Sjálandi.
Eyþór Árnason

Það sem ég tók eftir þegar ég kom fyrst hingað inn er þessi magnaði Krónuandi og góða stemning sem ríkir meðal starfsfólksins. Að sama skapi er ljóst að hér leggur fólk hart að sér og hikar ekki við að ganga í verkin, enda af nógu að taka í þessum dýnamíska geira," segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, sem nýlega tók við sem forstöðumaður nýs sameinaðs innkaupa og vörustýringarsviðs Krónunnar.

„Mikil þróun er að eiga sér stað á matvörumarkaði og þessum sífelldu breytingum fylgir ákveðin sköpunargleði og kraftur sem ég heillast af. Það er jafnframt virkilega gaman að koma inn í fyrirtæki sem veit svona vel fyrir hvað það stendur og vinnur að því dag og nótt að styðja við og einfalda líf viðskiptavina - sem er svo sannarlega þörf á í því hraða samfélagi sem við búum í. Við leitumst eftir því að skilja viðskiptavininn vel og mæta þeirra væntingum eftir bestu getu. Við fylgjumst því vel með breytingum, bæði í þeirra áherslum sem og þeim nýjungum sem eru að koma inn á markaðinn. Áhersla Krónunnar á samfélagslega ábyrgð og umhverfismál eru mér mjög mikilvæg og það er mikill heiður að fá tækifæri til að vera hluti af þessari spennandi vegferð sem fyrirtækið er á."

Guðrún starfaði áður sem forstöðumaður á rekstrarsviði Icelandair. „Icelandair er öflugt fyrirtæki. Þessi flugbransi er ekki síður dýnamískur og það er svo sannarlega mikil útsjónarsemi og kraftur sem býr í starfsfólki félagsins, sem hefur síendurtekið þurft að sýna seiglu og finna leiðir til að bregðast við breyttum aðstæðum undanfarin misseri," segir Guðrún og vísar þar m.a. til breytinga sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér.

Guðrún hefur einnig reynslu af störfum á alþjóðlegum vettvangi eftir að hafa starfað í Danmörku og á Nýja-Sjálandi. Unnusti hennar, Leifur Sigurðarson, er einmitt hálfur Ný-Sjálendingur. Guðrún lýsir þeim sem miklum flökkukindum og hafa þau búið saman í Danmörku, á Englandi og Nýja-Sjálandi, en árið 2017 ákváðu þau að snúa aftur til Íslands. Í frítíma sínum eyðir Guðrún flestum stundum með Leifi og syni þeirra, Veigari, sem er að verða tveggja ára.

„Mér þykir einnig mikilvægt að stunda reglulega hreyfingu og er mikið fyrir jóga. Mér finnst einnig frábært að fara í spinning og var ég fastagestur í World Class áður en Covid skall á." Þá hefur hún mikinn áhuga á matargerð og ferðalögum. „Við ferðuðumst talsvert fyrir Covid, þannig að þessi faraldur hefur breytt lífsstíl manns töluvert. En það sem Covid hefur kannski ekki síst kennt manni er að meta enn frekar mikilvægi þess að lifa heilbrigðum lífsstíl og að taka samverustundum með fjölskyldu og vinum ekki sem sjálfgefnum hlut."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér