Kickoff CM er fyrsti íslenski knattspyrnustjóraleikurinn, en hann verður gefinn út í dag. Leikurinn hefur verið þrjú ár í þróun, sem hefur kostað um 150 milljónir króna. Útgefandinn er íslenska fyrirtækið Digon Games, sem ætlar sér stóra hluti með leikinn.

„Við erum búin að vera með hann í prófunarferli núna undanfarnar vikur og mánuði. Það eru nokkur hundruð manns í þeim hópi, sem hefur farið stækkandi,“ segir Guðni Rúnar Gíslason, leikjahönnuður hjá Digon Games, í samtali við Viðskiptablaðið.

Ekki bara fyrir bullur

„Þegar þú skráir þig inn í leikinn færð þú þitt eigið lið og það kemur fullbúið, með leikmönnum og öllu og þú getur byrjað að spila leik á innan við mínútu,“ segir hann. Fyrst um sinn verður leikurinn aðgengilegur í vafra á kickoff.is , en síðar er stefnt að útgáfu hans á snjalltækjum. Guðni segir að vegna þess hve aðgengilegur leikurinn sé ættu allir, ekki bara forfallnir fótboltaáhugamenn, að geta spilað hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .