940 félög hafa verið lýst gjaldþrota undanfarna 12 mánuði sem er það mesta á sama tímabili í sjö ár. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum Hagstofunnar um gjaldþrot frá því í mars. Sé horft á tímabilið apríl 2019 til mars 2020 hafa gjaldþrotin ekki verið fleiri frá sama tímabili síðan árin 2012 til 2013 en þá voru þau 984.

Gjaldþrotunum er nokkuð misjafnlega dreift milli greina. Gjaldþrotum í flokkunum rekstur gististaða og veitingarekstur fjölgar mest milli ára eða um 43%. 83 félög í þessum flokki var lýst gjaldþrota á síðustu 12 mánuðum miðað við 58 tólf mánuði þar á undan. Gjaldþrotin eru þau flestu frá sama tímabili frá apríl 2011 til mars 2012. Tímabilið nær yfir 12 mánuði frá falli Wow air í lok mars 2019. Þá hefur kórónuveirufaraldurinn goldið ferðaþjónustunni þungt högg.

Flest gjaldþrot eru í flokknum byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Þar fjölgar gjaldþrotum um 33% þar sem 192 félög hafa verið lýst gjaldþrota undanfarna 12 mánuði miðað við 144 árið þar á undan. Gjaldþrotin hafa ekki verið fleiri í greininni frá sama tímabili árin 2012 til 2013.

Gjaldþrotin í heild eru enn nokkuð færri en þegar þau voru flest eftir bankahrunið. Frá apríl 2011 til mars 2012 voru 1493 lýst gjaldþrota.