Fleiri eru andvígir því en hlynntir að lagður verði raforkusæstrengur á milli Íslands og Bretlands í þeim tilgangi að selja rafmagn til Bretlands. Þetta eru niðurstöður könnunar Gallup sem framkvæmd var fyrir samtökin Auðlindir okkar, sem lýst hafa yfir andstöðu við lagningu strengsins.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru 42% andvíg lagningu sæstrengsins, 21,1% sögðust hvorki andvíg né hlynnt og 36,9% sögðust hlynnt aðgerðinni. Þeir sem eru 65 ára og eldri eru helst andvígir lagningu sæstrengsins eða 48% meðan 31% er henni hlynnt. Í yngsta aldurshópnum, 18 til 24 ára, eru hins vegar 35% hlynnt lagningunni en 30% andvíg.

Meiri andstaða með nýjum virkjunum

Tvær aðrar spurningar voru lagðar fyrir svarendur í könnuninni. Þegar fólk var spurt hversu hlynnt eða andvígt það væri lagningu raforkusæstrengs á milli Íslands og Bretlands ef hún kallaði á nýjar virkjanaframkvæmdir á Íslandi kom öllu meiri andstaða í ljós. Þá sögðust 55,4% vera andvíg, 17,3% hvorki andvíg né hlynnt, og 27,3% hlynnt.

Loks voru þátttakendur spurðir hvort þeir hefðu fylgst mikið, lítið eða ekkert með umræðu í fjölmiðlum og annars staðar um lagningu sæstrengsins. 30% sögðust hafa fylgst mikið með, 29% hvorki mikið né lítið, 31% hafa lítið fylgst með og 10% alls ekkert. 67% þeirra sem sögðust hafa mikið fylgst með umræðunni voru andvígir lagningu sæstrengsins, en um helmingur annarra var henni andvígur.

Úrtak könnunarinnar var 1.420 einstaklingar á landinu öllu sem eru 18 ára og eldri og voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 829 og þátttökuhlutfall því 58,4%.