Hlutfall þeirra Bandaríkjamanna sem búa í eigin húsnæði hefur farið lækkandi. Hlutfallið hefur ekki verið lægra í 15 ár, og er nú 65,4%. Hlufallið lýsir þeim sem sjálfir eiga það húsnæði sem þeir búa í.

Hlutfallið er ólíkt hjá mismunandi hópum og eftir landssvæðum. Þannig er hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði tæplega 60% á vesturströnd Bandaríkjanna. Hjá blökkumönnum er hlutfallið aðeins 43,1% og hjá íbúum af rómönskum uppruna er það 46,3%.

Ástæða lækkandi hlutfalls er sögð aukinn fjöldi gjaldþrota samhliða batnandi leigumarkaði. Hlutfallið var um 70% áður en hin svokallaða fasteignabóla Bandaríkjamanna sprakk árið 2004. Það hlutfall kann þó að hafa verið skekkt vegna fjölda einstaklinga sem bjuggu í eigin húsnæði en greiddu ekki afborganir sem skyldi. Frá þessu er sagt á vef bandaríska dagblaðsins Chicago Tribune.

Það eru þó ýmis jákvæð merki á bandarískum fasteignamarkaði. Verð eru stöðugri en hefur verið á undanförnum árum og fasteignakaup fara vaxandi.