Roskilde Bank verður að öllum líkindum ekki eini danski bankinn sem ratar í vandræði í kjölfar fjármálakreppunnnar og lækkandi fasteignaverðs í Danmörku. Þetta fullyrðir Louise Lundberg, sem sér um lánhæfismat norrænna banka hjá Standard & Poor’s. „Ég tel að vaxandi erfiðleikar í bankakerfinu muni reyna mjög á þol nokkurra minni banka.

Auknir erfiðleikar við að afla sér lánsfjár frá öðrum bönkum og auknar kröfur um áhættustýringu mun setja pressu á þá. Fjármögnun er almennt orðin erfiðari vegna hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Þegar við bætist síðan niðursveifla á fasteignamarkaðnum getur það þýtt að fleiri smærri danskir bankar lendi í vandræðum. Við teljum ekki að mjög margir danskir bankar lendi í þessu en það getur þó hent nokkra,“ segir Lundberg við fréttaveitu Børsen.

Hún tekur þó fram að að mati Standard & Poor’s sé enginn hinna stærri dönsku banka í hættu og bendir á að þrátt fyrir vandræði Roskilde Bank og Trelleborg sé danski bankageirinn mjög sterkur. Standard & Poor’s skipti fjármálamörkuðum í þeim löndum, þar sem það meti banka, í tíu flokka og Danmörk sé í fyrsta flokki sem sé með minnstu áhættuna.

„En umsvifin í danska hagkerfinu dragast hratt saman og á sama tíma fer húsnæðisverð lækkandi. Við erum örlítið áhyggjufull vegna lækkunarinnar og áhrif hennar á byggingargeirann. Við teljum að það muni verða til þess að fleiri lán bankanna lendi í vanskilum og að gæði eigna þeirra versni í framtíðinni,“ segir Lundberg við Børsen.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .