Bandaríska alríkisstofunin Federal Deposit Insurance Corporation (FDIC) hefur tekið yfir fleiri banka í ár en í fyrra.  Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Þegar 11 dagar eru eftir af þessu ári hefur FDIC tekið yfir 151 banka.  Stofnunin tók hins vegar yfir 140 banka í fyrra.

Bönkum og innlánsstofnunum hefur fækkað um nærri 500 frá árinu 2008 en þær eru 7.760 talsins í dag.

Fleiri bankar í vandræðum í ár

Í dag eru 860 bankar í vandræðum að mati stofnunarinnar en þeir voru 702 í fyrra.  Árið 2008 voru þeir 252.  Hins vegar eru bankar í vandræðum í dag með minni efnahagsreikninga að meðaltali en vandræðabankarnir í fyrra og því segir fjöldi banka ekki endilega alla söguna.

Mikil fjölgun starfsmanna hjá stofnuninni

Starfsmönnum FDIC hefur fjölgað mikið frá því fjármálakreppan hófst.  Á árunum 2005-2007 voru þeir um 4.500. Starfsmennirnir eru nú 8.027, 1.500 fleiri en í fyrra og rúmum 3.000 fleiri en árið 2008.