Nú á fyrstu mánuðum ársins sjáum við gríðarlega jákvæðar tölur fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni og við sjáum að bókunarstaðan er vænlegri fyrir sumarið ef við berum okkur saman við fyrsta mánuð ársins árið 2019,” segir Haukur Birgisson, framkvæmdastjóri Travia.

Hann segir að bókanir á íslensk hótel í janúar 2022 hafi verið um fimmtungi fleiri en í janúar 2019. Mikil aukning bókana í gegnum markaðstorgið Travia bendi til þess að markaðurinn sé tilbúinn til þess að ferðast eftir covid.

„Við sjáum að bókanir frá mið- og norður-Evrópu eru að taka vel við sér og við búumst við því að þessi hópur ferðamanna sé orðinn mjög þyrstur í ferðalög. Að auki sjáum við mikinn vöxt í bókunum frá N-Ameríku sem er gleðiefni fyrir alla ferðaþjónustu landsins. Svo er markaður sem var í miklum vexti fyrir covid og það var Asíumarkaðurinn og við teljum að þessi markaður muni halda áfram að vaxa hratt eftir að takmörkunum verður aflétt.”

Haukur bætir einnig við að ferðamaðurinn virðist ætla sér að nýta ferðaskrifstofur í auknum mæli til þess að bóka ferðalagið sitt til Íslands frekar en á eigin vegum.

„Það má draga ályktun að vöxtur bókana hjá ferðaskrifstofum bendi til þess að ferðamaðurinn vilji vera fullviss um tryggingar og þekkingar á covid takmörkunum, séu þær einhverjar. En ferðaskrifstofan sem selur ferð til Íslands þekkir bæði landið mjög vel ásamt því að hafa allar viðeigandi tryggingar.”

Hálf milljón bókaðra nótta í gegnum Travia í ár

Síðasta mánuð hafa að meðaltali farið um 2.000 bókanir á dag í gegnum Travia markaðstorgið fyrir Íslandsmarkað frá mörg hundruð innlendum og erlendum ferðaskrifstofum. Útlit fyrir allt að hálf milljón bókaðra nátta í gegnum Travia markaðstorgið til Íslands í ár.

„Þetta hefur verið alveg ótrúleg vegferð síðustu 3 ár, en sumarið 2021 fóru um 15% af öllum bókunum í gegnum Travia. Nú fyrir árið 2022 sjáum við að ferðaskrifstofur skipa mikilvægan sess í endurkomu ferðaþjónustunnar. Við erum með um 700 hótel skráð á Íslandi og þar eru í boði yfir 9000 gistirými. Og á þessi gistirými og hótel eru yfir 500 ferðaskrifstofur að bóka á hverjum degi. Við búumst við því að heildarvelta í gegnum Travia verði yfir 10 milljarðar í ár.”

Sjá einnig: Travia veiti bókunar­risunum sam­keppni

Travia er markaðstorg sem tengir saman ferðaskrifstofur og gististaði/hótel. Markaðstorgið kom út árið 2019 og hefur síðan þá tengst yfir 500 hótelkerfum um allan heim og yfir hálf milljón hótela geta tengst hugbúnaðinum.