Tæplega 10 milljónir Bandaríkjamanna eiga ekki bankareikning. Þetta er um 8,2% landsmanna. Til samanburðar var hlutfallið 7,7%, um 9 milljónir landsmanna, fyrir þremur árum. Bandaríski innstæðutryggingasjóðurinn (FDIC) lét kanna það á dögunum hversu margir eiga bankareikninga þar í landi og voru niðurstöðurnar birtar á miðvikudag.

Fram kemur í umfjöllun bandarísku fréttastofunnar CNN um málið að um þriðjungur þeirra sem þátt tóku í könnuninni og hafa ekki stofnað bankareikning sögðust ekki hafa átt þá lágmarksupphæð sem þarf til að leggja inn í banka. Um fimmtungur svaraði því svo til að hann vildi einfaldlega ekki eiga bankareikning. Um 7,5% þeirra sem ekki eiga bankareikninga sögðust hins vegar ekki treysta bönkum til að geyma peningana þeirra. Aðrir uppfylltu ýmist ekki skilyrða banka til að stofna bankareikning eða voru ásvörtum lista hjá bönkum af einhverjum sökum.