Fleiri manneskjur í heiminum eiga farsíma en hafa aðgengi að nægilega góðri salernisaðstöðu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum.

Þar segir að af sjö milljörðum manna í heiminum í dag hafi sex milljarðar farsíma, en aðeins 4,5 milljarðar hafa aðgang að klósetti eða kamar. Þetta þýðir að um einn og hálfur milljarður hefur farsíma en ekki salerni.

Reyndar ber að taka fram að sex milljarða talan er fengin með því að telja áskriftir að farsímaþjónustu. vegna þess að einhverjir hafa fleiri en eina áskrift eða farsíma þá er þessi tala væntanlega eitthvað lægri.

Samanburðurinn undirstrikar þann vanda sem enn er til staðar í heilbrigðismálum víðs vegar um heim. Í grein Gizmodo um málið er þó bent á það ljós í myrkrinu að hægt er að nota farsímana til að fræða fólk um mikilvægi þess að bæta hreinlæti.