Íslendingar virðast hafa tekið svokölluðum snjallsímum opnum örmum samkvæmt könnun MMR á íslenskum farsímamarkaði í október 2012. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningar í könnun MMR sögðust 54,0% eiga snjallsíma. Á sama tíma fyrir tveimur árum áttu 43,0% snjallsíma.

Flestir snjallsímanotendur voru með símtæki frá Samsung eða 33,5% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar. Hlutdeild Samsung meðal snjallsímanotenda hefur aukist stöðugt frá því í nóvember 2010 þegar hún mældist 3,8%. Apple (iPhone) og HTC hafa einnig bætt við sig hlutdeild meðal snjallsímanotenda en hlutdeild annara framleiðenda hefur ýmist staðið í stað eða dregist saman.

Fram kemur í tilkynningu frá MMR að af öllum þeim sem svöruðu spurningunni þá sögðust 43,4% nota mest farsíma frá Nokia. Þar af sögðust 74,0% þeirra sem nota hefðbundin símtæki mest nota síma frá Nokia. Á móti voru aðeins 17,1% þeirra sem sögðust vera með snjallsíma frá Nokia. Hlutdeild Nokia meðal snjallsímanotenda var því nokkuð lægri en meðal notenda á hefðbundnum farsímum en hún hefur lækkað stöðugt frá því í nóvember árið 2010 þegar hún mældist 50,8%.

Könnunin var framkvæmd dagana 9.-12. október 2012 og var heildarfjöldi svarenda 829 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára.

Hér má lesa nánar um könnun MMR.