Fjölmiðlafyrirtækið sem gefur út norska dagblaðið Dagbladet hefur áhuga á að kaupa fjölmiðlaeiningu Orkla-samstæðunnar. Einnig hefur breski fjárfestingasjóðurinn Permira áhuga á Orkla Media, samkvæmt upplýsingum Berlinske Tidende.

Cato Hellesjoe, forstjóri Avishuset Dagbladet, sagði í samtali við Dagens Næringsliv að félagið hafi áhuga á að kaupa Orkla Media í heild sinni, en ekki aðeins hluta fjölmiðlaeiningarinnar. "Við munum borga með peningum," sagði Hellesjoe. Talið er að virði einingarinnar sé á bilinu 80-90 milljarðar.

Í Dagens Næringsliv segir að móðurfélagið Orkla muni að öllum líkindum ekki vilja selja eina arðbærustu einingu innan Orkla Media, Hjemmet Mortensen.

Hellsjoe sagði í samtali við dagblaðið: "Við erum að undirbúa komu okkar í úrvalsdeildina og erum að leita eftir tækifærum í Noregi og víðar."

"Við erum á leiðinni að verða fjölmiðlasamsteypa en ekki einungis dagblað og áætlanir okkar gera ráð fyrir hægum en öruggum vexti. Þetta (hugsanleg kaup á Orkla Media) er fyrsta skrefið í áttina að verða alþjóðlegt fjölmiðlafyrirtæki á Norðulöndum, sem er takmark okkar," sagði Hellsjoe.

Haft hefur verið eftir Þórdísi J. Sigurðardóttur, stjórnarformanni Dagsbrúnar, að félagið hafi áhuga á Orkla Media. Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs á Norðurlöndum, sagði í samtali við dönsku fréttastofuna Ritzau að það kæmi til greina að fjárfesta í Orkla Media. En sagði þó að viðræður hefðu ekki hafist og að annað væru getgátur.