Breski fjárfestingasjóðurinn 3i hefur átt í viðræðum við nokkra hugsanlega kaupendur að hollenska drykkjarvörufarmleiðandanum Refresco, segir í frétt Financial Times.

Viðskiptablaðið greindi frá því á föstudaginn að FL Group, ásamt Vífilfelli, væri að vinna að kaupum á Refresco og að kaupverðið væri líklega um 500 milljónir evra, eða rúmlega 44 milljarðar króna, að skuldum félagsins meðtöldum.

FL Group staðfesti fréttina í tilkynningu til Kauphallarinnar en tók fram að félagið myndi ekki tjá sig frekar um yfirtökuviðræðurnar.

Heimildarmaður Financial Times segir að ekki sér öruggt að FL Group nái að kaupa Refresco og bætir við að 3i hafi átt viðræður við nokkra aðra hugsanlega kaupendur. Ekki hefur komið fram hvaða aðilar, auk FL Group, hafa átti í viðræðum við fjárfestingasjóðinn.