Töluverður munur er á atvinnuleysi Íslendinga á vinnumarkaði og erlends starfsfólks. Samtals var atvinnuleysi 3,3% í lok september síðastliðinn, atvinnuleysi meðal erlendra starfsmanna er 6,2% en 2,6% hjá innlendum.

Þetta kemur fram í umfjöllun Hagfræðideildar Landsbankans í Hagsjá sem birt var á vef bankans í morgun.

Staðgreiðsluskrá sýni að fjöldi starfandi fólks á fyrri hluta ársins sé næstum sá sami og á síðasta ári. „Innlendum starfsmönnum á vinnumarkaði hefur fækkað um 1,8% á þessum tíma, en erlendu starfsfólki fjölgað um 5,8%. Sé litið á tímabilið frá upphafi ársins 2014 fram á mitt ár 2019 hefur starfandi fólki fjölgað að meðaltali um 3,2% milli ára. Þar af hefur erlendu starfsfólki fjölgað að meðaltali um 15,3% á ári og innlendu um 1,3%. Á 2. ársfjórðungi í ár var erlendu starfsfólki enn að fjölga, en innlendu starfsfólki hafði fækkað um rúm 2% milli ára. Á seinni hluta ársins 2016 og seinni hluta 2017 fjölgaði erlendu starfsfólki að jafnaði um meira en fjórðung milli ára,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

„Nú í lok september voru rúmlega 2.600 erlendir starfsmenn á atvinnuleysisskrá, eða 37,1% atvinnulausra. Í lok desember sl. voru erlendir starfsmenn 35,4% atvinnulausra þannig að hlutfall þeirra hafði aukist nokkuð frá því í desember. Erlendum atvinnulausum hefur því fjölgað hlutfallslega meira en innlendum á þessu ári.

Sé litið á fjölda starfandi á vinnumarkaði samkvæmt staðgreiðsluskrá má sjá að atvinnuleysi innlendra starfsmanna er um 2,6% af þeim sem eru á vinnumarkaði. Atvinnuleysi erlendra starfsmanna er hins vegar 6,2% og meðalatvinnuleysi allra 3,3%.“