Breska lággjaldaflugfélagið easyJet tilkynnti í dag um 13.7% aukningu farþegafjölda október og flutti félagið 2,73 milljónir farþega. Sætanýting á tímabilinu var 85,6% og lækkar um 1,4 prósentustig.

Félagið hækkaði afkomuspá sína á ágúst og áætlar að svipaður hagnaður verði af tólf mánaða rekstri félagsins og í fyrra, eða um 62 milljónir punda (6,55 milljarðar króna). Í tilkynningu frá easyJet segir að tekjur á síðustu tólf mánuðum hafi aukist um 21,8% í 1,36 milljarða punda og að farþegafjöldi hafi aukist um 20,4%.

EasyJet sagði í síðustu viku að félagið hyggst slaka á hömlum um eignarhald. Sérfræðingar telja að breytingarnar muni verða til þess að FL Group auki hlut sinn enn frekar, en félagið á um 16% hlut í easyJet.

Í tilkynningu frá easyJet segir að nú sé erlendum aðilum leyfilegt að eignast allt að 45% hlut í félaginu, en hámarkið var áður 40%. Breytingin er gerð til að gefa ?hluthöfum félagsins meiri sveigjanleika," segir í tilkynningunni.

Sérfræðingar búast við því að FL Group muni auka hlut sinn á næstunni en taka þó fram að það reynist erfitt að taka yfir easyJet þar sem stofnandi félagsins, Stelios Haji-Ioannou, og fjölskylda ráði yfir um 40% hlut í félaginu. Stelios er einnig í stjórn félagsins og hefur sagt að hann muni ekki selja hlut sinn í félaginu.