„Við höfum, án þess að ég sé að leggja nokkurt mat á hvort verðlagið sé of hátt eða of lágt, bent á ákveðnar hættur sem eignamörkuðum er skapað með gjaldeyrismörkuðum hér á landi,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. Hann segir í samtali við Fréttablaðið í dag að fjármagn hér á landi hafi ekki aðra kosti en innlenda og geti það skapað ákveðnar hættur, s.s. skekkingu í verðmyndun. Á móti hafi erlent fjármagn í takmörkuðu leyti leitað inn á íslenska markaðinn og það dregið úr hættunni. Það segir hann skýrast af vantrausti vegna gjaldeyrishafta. „Það er auðvitað í sjálfu sér ekki af hinum góða,“ segir forstjóri Kauphallarinnar.

Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Stefáni Brodda Guðjónssyni, sérfræðingi hjá greiningardeild Arion banka, að merki séu um að eignabóla geti farið að myndast á hlutabréfamarkaði þar sem mikið fjármagn leiti í fáa fjárfestingarkosti.

Páll segir mögulegu lausnina þá að fjölga kostum á hlutabréfamarkaði enda á hann að endurspegla hagkerfi okkar á hverjum tíma. Þessu samkvæmt vill hann sjá á markaðnum félög í fjármálageiranum, orkugeiranum og sjávarútvegi.