Icelandair flutti rúmlega 215 þúsund farþega í millilandaflugi í september. Þetta er 9% fleiri farþegar en í september í fyrra, samkvæmt flutningatölum flugfélagsins. Framboðsaukningin nam 15% á milli ára og var sætanýtingin 78,1% borið saman við 81,1% í september í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair um farþegafjöldann að farþegum fjölgaði mest á N-Atlantshafsmarkaðnum eða um 15,4% og voru þeir 51% af heildarfarþegafjölda Icelandair í september.

Færri í innanlands- og Grænlandsflugi

Þá voru 25 þúsund farþegar í innanlandsflugi Icelandair og í Grænlandsfluginu. Þetta er 13% fækkun frá í fyrra. Framboð félagsins hefur dregist saman um 14% frá í september í fyrra. Sætanýtingin í þessum flugum nam 71,2% og jókst hún um 1,2% á milli ára.

Þá kemur fram í tilkynningu Icelandair að seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 7% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 9% frá því á síðasta ári. Fjöldi framboðinna gistinótta á hótelum félagsins jókst um 3% milli ára. Herbergjanýting var 69,8% samanborið við 76,5% í september í fyrra.