Jenið styrktist og hávaxtamyntir á borð við nýsjálenska og ástralska dalinn veiktust sökum nýrra frétta af fjármálafyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu tapi vegna útlánda tengdum áhættusömum fasteignalánum (e. subprime) í Bandaríkjunum. Áhættuflótti fjárfesta jókst í kjölfarið.

Aukin áhættufælni fjárfesta hefur leitt til þess að ávöxtunarkrafa á bandarísk ríkisskuldabréf er nú í tveggja ára lágmarki, en lækkun hennar á mánudaginn var sú mesta á einum degi í tvo áratugi, að því er Bloomberg-fréttaveitan greinir frá. Eftir að fjárfestar höfðu flúið hávaxtamyntir í miklum mæli alla síðustu viku yfir í öruggari fjárfestingar, tóku vaxtamunarviðskipti tímabundinn kipp á mánudaginn og í kjölfarið styrktist meðal annars gengi tyrknesku lírunar, suðurafríska randsins og ástralska og nýsjálenska dollarans. Að sama skapi veiktist gengi lágvaxtamynta eins og svissneska frankans og japanska jensins, enda þótt sú lækkun hafi ekki verið umtalsverð.

Sú þróun virðist hins vegar aðeins vera tímabundin ef marka má ummæi flestra gjaldeyrissérfræðinga og ekki vísbending um að vaxtamunarviðskipti séu aftur að taka við sér - heldur fremur tímabundin viðbrögð sem einkum má rekja til ákvörðunar Seðlabanka Bandaríkjanna að lækka útlánavexti á skammtímalánum bankans úr 6,25% í 5,75%. Adrian Schmidt, helsti gjaldeyrissérfræðingur Royal Bank of Scotland (RBS), bendir á það í samtali við Financial Times að í ljósi þess að ekkert lát sé á slæmum fréttum vegna áhættusamra fasteignalána er viðbúið að það muni haldi áfram að vinda ofan vaxtamunarviðskiptum og áhættuflótti fjárfesta aukist enn frekar.

Þróun á hlutabréfamörkuðum lykilatriði fyrir gjaldmiðla
Capital One Financial, eitt stærsta greiðslukortafyrirtæki Bandaríkjanna, tilkynnti á mánudaginn að það myndi þurfa að afskrifa um 860 milljónir Bandaríkjadala sem má rekja til ástandins á fasteignamarkaðinum þar í landi. Félagið greindi einnig frá því að það ætlaði að loka Green Point Mortgage fasteignalánaeiningu fyrirtæksins og segja upp tæplega 2000 starfsmönnum. Á sama tíma sagði bandaríska veðlánafyrirtækið Thornburg Mortgage frá því að félagið hefði tapað um 930 milljónum dala á því að selja skuldabréf tengd áhættusömum fasteignaveðlánum. Gengi hlutabréfa Thornburg féllu um tæplega 9% þegar markaðir opnuðu vestanahafs í gærmorgun, eftir að bréfin höfðu lækkað um 10% á mánudaginn.

Þessar fréttir urðu meðal annars til þess að jenið styrktist gagnvart helstu myntum á gjaldeyrismarkaði í gær; hækkunin gagnvart Bandaríkjadal nam um hálfu prósenti á meðan hávaxtamyntir á borð við ástralska og nýsjálenska dollarann veiktust um ríflega eitt prósent gagnvart jeninu. Katie Martin, pistlahöfundur hjá Dow Jones-fréttaveitunni, telur að þróunin á hlutabréfamörkuðum eigi eftir að gegna lykilatriði varðandi gengisþróun helstu gjaldeyrismynta á næstu misserum: Ef mikill titringur á helstu hlutabréfamörkuðum heimsins mun halda áfram er sennilegt að fjárfestar hverfi frá vaxtamunarviðskiptum.

Adrian Schmidt hjá RBS tekur undir með Martin og telur að hin jákvæðu áhrif á fjármálamörkuðum sem urðu við vaxtalækkunarákvörðun bandaríska seðlabankans séu nú liðin undir lok og fjárfestar eigi eftir að halda að sér höndum á meðan von sé á frekari slæmum fréttum tengdum áhættusömum fasteignalánum. "Slíkt mun endurspeglast í enn meiri styrkingu jensins, og einnig Bandaríkjadals gagnvart helstu myntum - fyrir utan jenið og svissneska frankann", segir Schmidt.

Bandarískar hlutabréfavísitölur höfðu hækkað um hálft prósent á hádegi í gær eftir að Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í samtali við CNBC sjónvarpsstöðina að hann sæi ekki neina skjóta lausn á þeim vandamálum sem nú ríkja á fjármagnsmörkuðum, auk þess sem hann benti á að nú ætti sér stað endurmat á verðlagningu á lánsfjármagni sem ekki yrði umflúið. Að sögn Paulson eru grunnstoðir raunhagkerfis Bandaríkjanna engu að síður sterkar, en hann bætti því við að "hagvöxtur muni verða minni" en hann hefði verið við venjulegar aðstæður.