Farþegum fjölgaði talsvert sem fóru landa á milli í millilandaflugi með Icelandair í apríl. Farþegarnir voru 176 þúsund talsins í mánuðinum sem var 19% fjölgun á milli ára. Fram kemur í flutningatölum Icelandair Group að framboðsaukning  í sætiskílómetrum nam 17%. Sætanýting var 79,4% og jókst um 3,4 prósentustig á milli ára.

Farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru um 22 þúsund í apríl sem er fækkun um 13% á milli ára. Framboð félagsins í apríl dróst saman um 13% á milli ára. Sætanýting nam 68,7% og dróst saman um 1,1 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 38% á milli ára. Á sama tíma jukust fraktflutningar í áætlunarflugi um 8% frá í fyrra.

Seldum gistinóttum á hótelum félagsins fjölgaði um 3% miðað við apríl 2013. Herbergjanýting var 69,2% en hún nam 66,9% í apríl í fyrra.