Fleiri fyr­ir­tæki inn­an Sam­taka iðnaðar­ins (SI) telja krón­una henta sem gjald­miðil fyr­ir sinn at­vinnu­rekst­ur nú í ár held­ur en í fyrra.

Þetta kem­ur fram í könn­un sem SI létu gera og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Þannig segja 38% svar­enda nú að krón­an henti sem gjald­miðill en í fyrra svöruðu 29% þátt­tak­enda á sömu lund. Lít­il breyt­ing er á hlut­falli þeirra fyr­ir­tækja sem telja krón­una henta illa. Þannig sögðu 23% svar­enda að hún hentaði frek­ar eða mjög illa en í fyrra var hlut­fallið 24%.

Í viðtali við Morgunblaðið segir Almar Guðmundsson, fram­kvæmda­stjóri SI, niðurstöðurnar í sjálfu sér ekki koma honum á óvart en leiða megi að því lík­ur að fylgni sé á milli af­stöðunn­ar til gjald­miðils­ins og þess upp­gangs sem orðið hef­ur í efna­hags­líf­inu hér á landi á und­an­förn­um árum.