Nýskráningar einkahlutafélaga voru 7% fleiri á síðastliðnum tólf mánuðum en árið á undan, þ.e. frá í maí árið 2013 og til loka apríl í ár, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Alls voru 1.956 nýskráð félög á tímabilinu. Flestar nýskráningar voru í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða 322 talsins.

Á sama tíma voru 879 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á síðastliðnum tólf mánuðum. Þetta er 17% samdráttur á milli ára. Flest voru gjaldþrotin í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 167 talsins.