Aðilar í kröfuhafahópi Glitnis íhuga þessa dagana að leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti á hendur slitabúinu. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

Heiðar Guðjónsson fjárfestir hefur áður lagt fram slíka kröfu á hendur Glitni. Kröfuna átti að taka fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í þarsíðustu viku, en rétt áður en til þess kom var fjárkrafa hans greidd upp af erlendum aðila og var gjaldþrotakrafan því aldrei tekin fyrir. Heiðar fékk þannig fullar heimtur á fjárkröfu sína í stað 30-40%, sem er núverandi gangvirði krafna á hendur búinu.

Ýmsir kröfuhafar sjá sér nú leik á borði til þess að tryggja fullar heimtur á kröfum sínum, sér í lagi þeir sem eiga lægri kröfur á hendur slitabúinu. Þannig mega þeir búast við því að kröfur þeirra verði greiddar til fulls krefjist þeir gjaldþrotaskipta á slitabúi Glitnis.

Heiðar hefur einnig lagt fram kröfu um gjaldþrotaskipti á hendur slitabúi Kaupþings , líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gærkvöldi. Þá sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið að hann teldi hagsmunum almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða langsamlega fyrir bestu að slitabú föllnu bankanna verði settir í þrot. Þá fengju íslenskir kröfuhafar greitt út, en erlendir kröfuhafar fengju ekki greitt vegna gjaldeyrislaganna.