Saksóknarar í þýsku borginni Braunschweig hafa nú sautján einstaklinga grunaða um misferli hjá þýska bílaframleiðandanum Volkswagen, en áður voru grunaðir sex talsins. Í frétt Wall Street Journal segir að verið sé að rannsaka meint svik og samkeppnislagabrot tengd útblásturshneyksli fyrirtækisins, sem kom upp í fyrra.

Engir núverandi eða fyrrverandi meðlimir framkvæmdastjórnar Volkswagen eru meðal hinna grunuðu, að því er segir í fréttinni, en gert er ráð fyrir því að rannsóknin muni taka marga mánuði enn.

Síðasta haust viðurkenndi Volkswagen að hafa komið fyrir hugbúnaði í 11 milljónum bifreiða sem gerði þeim kleyft að brjóta gegn útblástursstöðlum. Í Þýskalandi er fyrirtækjum ógjarnan refsað fyrir slík brot, heldur er áherslan frekar á að refsa einstaklingum sem bera ábyrgð á þeim.

Volkswagen er sjálft að rannsaka málið innanhúss og er gert ráð fyrir því að niðurstaða þeirrar rannsóknar liggi fyrir í apríllok.