Héraðsstjórn Andalúsíu á Spáni hefur óskað eftir eins milljarðs evra láni frá spænska ríkinu til að gera héraðinu kleift að standa við skuldbindingar sínar og greiða opinberum starfsmönnum laun.

Héraðið er það fjórða sem fer bónleið til höfuðborgarinnar eftir lánsfé. Hin héruðin eru Valencia, Murcia og Katalónía en þau hafa beðið saman um tæpa tíu milljarða evra til að halda sér gangandi. Þetta jafngildir tæpum 1.600 milljörðum íslenskra króna og jafnast það á við landsframleiðslu Íslands. Katalónía, sem er skuldsettasta hérað Spánar, á helming fjárhæðarinnar, fimm milljarða evra.

Ríkisstjórn Spánar setti á laggirnar neyðarsjóð í sumar sem héraðsstjórnir landsins geta leitað í eftir lánsfé. Í sjóðnum eru 18 milljarðar evra.

Óskir héraðanna eru lýsandi fyrir slæma stöðu í efnahagsmálum Spánar. Landsframleiðsla hefur dregist saman í nokkra ársfjórðunga í röð og fjórði hver landsmaður án atvinnu. Þá óskaði ríkisstjórn landsins eftir 100 milljarða evra láni úr neyðarbjörgunarsjóði evruríkjanna í sumar til að koma bönkum landsins á réttan kjöl.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir Luis de Guindos, ráðherra efnahagsmála á Spáni, að líklegt verði að lánið skili sér í nóvember.